Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vatnsmýrin er fitandi!

Í gær var haldið eitthvað málþing í Iðnó um m.a. að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu hefðu bein áhrif á versnandi lýðheilsu höfuðborgarbúa. Að skortur á útivistarsvæðum hefði þau áhrif að við hreyfðum okkur minna og að áherslan á einkabílin í samgöngum höfðuborgarsvæðisins væru þess valdandi að við færum síður hjólandi, gangandi eða hlaupandi okkar ferða.  Auðvitað barst í tal Vatnsmýrin og hve mikið svæði til útivistar væri þar í boði ef bara flugvöllurinn færi í burtu. Flugvöllurinn, sem er aðal samgönguæð landsbyggðarinnar, á sem sagt að víkja fyrir útivistarsvæði fyrir of feita borgarbúa sem færu hvort sem er ekki á þetta svæði þó að þeir fengu borgað fyrir það. Því að það er ekki skortur á útivistarsvæðum sem veldur því lýðheilsa borgarbúa versnar vegna þess að við þyngjumst og þyngjumst, það er einfaldlega bara vegna leti. Við nennum ekki að fara það sem við gætum farið labbandi, við veljum alltaf bílinn því að hann er fljótari, þægilegri og auðveldari. Ég sá svo viðtal við Dag B. Eggertsson í sjónvarpinu eftir þingið og þar komust hann og fréttamaðurinn að þeirri niðurstöðu að í rauninni væri Vatnsmýrin fitandi!! Já, það er alltaf auðveldara að koma sökinni yfir á aðra í staðinn fyrir að taka ábyrgðina sjálfur. 


AAAAAH, vorboðinn ljúfi

Alltaf veit maður þegar vorið nálgast því þá byrja sinubrunarnir að brenna. Þessir brunar eru yfirleitt af mannavöldum, hvort sem það eru einhverjir strákpjakkar eða bóndinn á næsta bæ. Slökkviliðið er nú alltaf vel undirbúið og ekki fór illa í þetta skiptið.
mbl.is Sinubruni við Lækjarbakka í Flóahreppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð fríblöðin!

Alltaf er ég að heyra það að Fréttablaðið sé mest lesna fríblaðið á Íslandi og að lestur á 24 stundum sé alltaf að aukast. En það er nú ekki mér að þakka því að ég fæ þessi blöð mjög sjaldan. Ekki er ástæðan sú að ég búi úti á landi því að ég bý í hinni stóru borg Reykjavík. Sem dæmi er ég búin að fá 24 stundir 3 sinnum frá páskum og Fréttablaðið 2 sinnum. Ef ég fæ ekki 24 stundir get ég sent tölvupóst og látið vita af því og ef ég fæ ekki Fréttablaðið er símsvari sem maður getur hringt og talað inn á. En ekki virðist þetta vera alveg að ganga upp hjá þeim. Í vetur hafði ég það á tilfinningunni að sá sem ber út Fréttablaðið í minni götu bæri bara út ef það væri gott veður og af því að dæmi getið þið ímyndað ykkur hve sjaldan Fréttablaðið barst til okkar í vetur. Ekki veit ég hver er ástæðan fyrir fjarveru 24 stunda því að það er ekki algild regla að það sé gott veður þegar það berst til mín. Og svo er það annað sem er ennþá furðulegra. Sumar nætur þegar ég fer á fætur til að gefa dóttur minni að drekka þá heyri ég að fiktað er í bréfalúgunni bæði hjá okkur og hjá nágranna okkar og geri ég þá ráð fyrir því að annað hvort blaðið sé að berast til okkar. En þegar ég fer svo að gá eru bara engin blöð í bréfalúgunni! Hvað er í gangi, eru þessar manneskjur sem bera út blöðin bara að þykjast? Fikta þær bara aðeins í bréfalúgunni og fara svo, því ekki get ég ímyndað mér að einhver annar sitji fyrir þeim og steli blöðunum frá okkur!! En ég auglýsi hér með eftir manneskju sem er tilbúin að bera út blöðin prívat og persónulega bara fyrir mig, manneskju sem þolir vel veður og vind og manneskju sem ekki ber út ósýnileg blöð. Góðar stundir

Ekki-fréttir?

Ég væri alveg til í að bara einn dag væru auðar forsíður, sérstaklega núna þegar allar fréttir virðast vera slæmar fréttir. Heyrði það að íslendingar hafi ekki verið jafn svartsýnir í 6 ár, kannski myndi það breytast eitthvað ef fólk hefði ekki fyrir augunum slæmar fyrirsagnir í blöðum alla daga. Gerum bara eins og slóvakarnir og höfum bara ekki -fréttir á forsíðum allra blaða. Eða eru þeir kannski bara að reyna að gleyma tapi landsliðsins í knattspyrnu gegn því íslenska í gærkveldi á sama tíma og við erum að reyna að gleyma falli íslensku krónunnar svo við getum haldið áfram að eyða eins og geðsjúklingar?
mbl.is Auðar forsíður til að mótmæla fjölmiðlafrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er með hárið á Dabba?

Ég var að horfa á fréttir Stöðvar 2 í kvöld og sá þar frétt um stýrivextina og þar fór auðvitað fremstur í flokki seðlabankastjórinn sjálfur, Davíð Oddsson. Ég hef ekki séð hann Dabba í svolítinn tíma og ég var bara ekki frá því að hann væri eitthvað breyttur. Ég var lengi að koma því fyrir mér en svo rann upp fyrir mér ljós, það var hárið!! Hárið á honum hafði á einhvern furðulegan hátt misst sjarmann sinn, þ.e.a.s. krullurnar. Hárið á honum var orðið rennislétt, eins og hann væri ný kominn úr lagningu! Hvað er í gangi? Er hann aftur kominn með nýjan stílista eða eitthvað svoleiðis? Hæfir það ekki seðlabankastjóra að vera með stjórnlaust hár á þessum síðustu og verstu tímum? Ég segji bara fyrir mitt leyti að ég kunni betur við hann með krullurnar Wink

Samgöngumálin og óþarfa þorpin

Eftir að ég sinni dóttur minni á morgnanna sest ég niður og les blöðin, ef þau hafa þá skilað sér þann morguninn. Í morgun var ég svo heppin að bæði Fréttablaðið og 24 stundir bárust inn um lúguna hjá mér. Í Fréttablaðinu rakst ég á innsenda grein sem staðsett var á síðu sem er kölluð skoðun. Þar var um að ræða grein um samgöngumál eftir Jón Otta Jónsson. En það var nú ekki það sem vakti athygli mína heldur var það fyrirsögnin ,,Veruleikafirrtir Vestfirðingar,,. Þessi grein er vægast sagt áhugaverð lesning. Ég hélt fyrst að fyrirsögnin væri einungis til þess að fá mann til að lesa greinina en hefði svo sem ekkert að gera með innihald greinarinnar. En þar skjáltlaðist mér. Jón Otti kemur í þessari grein fram með ýmsar áhugaverðar fullyrðingar sem ég hélt að væru ekki sæmandi vel upplýstu fólki. Oft hef ég nú heyrt þá skoðun að landsbyggðin sé heimtufrek á það fé sem er úthlutað til samgöngumála hverju sinni og að það sé ekki réttlætanlegt að úthluta svona miklu fé til byggða sem eru fámennar. En fullyrðingar Jón Otta kom mér verulega á óvart. Hann segir að t.d. byggðir eins og Bolungarvík, Flateyri, Súðavík og Suðureyri séu ,,óþarfa þorp,, og hafi því ekki forgang í samgöngubætur eins og gangagerð. Þorpin hafi verð þörf í gamla daga þegar hagstætt var fyrir sjómenn að búa sem næst fiskimiðunum. En eftir því sem tæknin breyttist hafi ekki verið nauðsynlegt að búa þarna og því hafi allt þetta fólk bara átt að flytja til Ísafjarðar þar sem góð höfn með nýtísku bátum voru staðsett. Jón Otti heldur áfram og segir að þessar samgöngubætur séu ekki réttlætanlegar vegna þess að þær séu aðeins til þess gerðar að ,,viðhalda óþarfa byggð með 500 manns,,. Hann segir fólk smáþorpanna vera með þvílíka heimtufrekju þegar þeir fari fram á ,,jarðgöng og snjóflóðavarnir,,. Já, guð forði okkur frá því að fólk sé varið fyrir náttúruöflunum, ég hélt að ég þyrfti ekki að minna á að fyrir aðeins 13 árum létust 35 manns á 10 mánuðum í snjóflóðum fyrir vestan. Já, frekjan í fólkinu að vilja forðast slíkan harmleik. En fólk getur svo sem sjálfum sér um kennt, er það ekki Jón Otti, að búa á þessum stöðum sem eru hvort sem er ,,óþarfa þorp,,.        Ég gæti alveg eins komið fram með eina dæmisögu og sagt að Breiðholtið sé óþarfa byggð í dag.    Að það hafi verði þarft á sínum tíma að koma með ódýrari íbúðarkosti fyrir láglaunafólk en að þegar hagur þeirra batnaði hafi það bara átt að flytja í burtu. Ég gæti því haldið því fram að ekki þyrfti lengur að halda úti þessari óþarfa byggð og því ætti bara að hætta að malbika göturnar upp í Breiðholt. Það sem Jón Otti er ekki að átta sig á er að fólk ræður því hvar það býr. Í Breiðholtinu eins og annars staðar kemur fólk og fer, það er þeirra val. Sama dæmið er uppi á teningnum á landsbyggðinni. Og hvern telur hann sig vera að halda því fram að sum þorp séu óþörf, er það hans að ákveða það? Ekki veit ég hvar hann Jón Otti býr en ekki gæti ég ímyndað mér að hann yrði sáttur við að ég myndi t.d. halda því fram að hans hverfið væri óþarft og því ekki þjóðhagslega hagkvæmt að viðhalda byggðinni og að hann ætti bara að drífa sig í burtu. Mér finnst margt í þessari grein hreinlega ekki upplýstri mannsekju sæmandi, að halda slíkri vitleysu fram og ekki vildi ég vita hvað hann myndi segja um sunnanverða Vestfirði og hver óþarft mitt þorpið er.

 


Kjarasamningar, börn og bleijur

Fréttir af nýundirskrifuðum kjarasamningum vöktu bæði gleði og óánægju. Ég er nú eins og er í fæðingarorlofi og eftir það ætla ég mér aftur í nám.   En samt sem áður fer ég fljótlega út á vinnumarkaðinn og þá verður spennandi að sjá hvernig þessir samningar nýtast mér.                          En ég var búin að segja það við manninn minn að eftir að verslunarmenn sögðu að þær hækkarnir sem nýjir kjarasamningar fælu í sér yrðu þess valdandi að vöruverð hækkaði yrðum við að vera vel vakandi. Við urðum fljótlega vör við talsverður hækkanir og hér koma bara 2 dæmi. Við eigum tæplega 4 mánaða dóttur sem þarf sínar bleiju og blautþurrkur á bossann sinn og nokkrum dögum eftir undirskrift kjarasamninganna liggur leið mín í eina lágvöruverlsun og sé það að sú tegund af blautþurrkum sem ég er vön að kaupa hefur hækkað um hátt í 100 kr. Ég fussa og sveija um það í dágóða stund en sætti mig fljótt við orðinn hlut. En núna í morgun þegar mér barst Fréttablaðið þá varð ég vör við enn eina vöruhækkunin sem á eftir að kosta litlu fjölskylduna mína nokkra 1000 kalla á mánuði. Ég hafði fylgst vel með því þegar bleijur kæmu á tilboði í einni lágvöruversluninni sem gerist oft með ákveðnu millibili. Ég hafði nokkrum sinnum keypt þessa risa kassa sem innihélt 111 bleijur sem var mun ódýrari heldur en að kaupa minni pakkningar. Þessir kassar kostuðu fyrir ekki nema tæpum 2 mánuðum um 1600 kr en í Fréttablaðinu eru þessir sömu tilboðskassar komnir upp í 2298 kr!!! Þarna er um að ræða næstum 700 króna hækkun, geri aðrir betur. Þannig er hægt að rekja bein áhrif hinna nýju kjarasamninga til þess að kostnaðurinn í kringum bossanum á dóttur okkar hefur aukist um ekki minna en 1500 kr á mánuði. Dýr bossi það, þökk sé nýjum kjarasamningum!


Fæðingarorlof; réttur allra?

Einn af stærstu atburðum í lífi mínu var fæðing dóttur minnar á síðasta ári. Tilhlökkunin var mikil eftir komu hennar í þennan heim þá 9 mánuði sem ég gekk með hana undir belti en einnig voru það nokkur vandamál sem skyggðu á þá ánægðu og mun ég í þessum orðum segja sögu mína.

     Ég er dæmigerður Vestfirðingur; byrjaði að vinna í fiski sumarið eftir fermingu, fór í menntaskóla í höfuðborginni, vann á sumrin í heimabyggð á meðan á náminu stóð og flutti svo aftur á berskuslóðir eftir að menntaskólanum lauk. Eftir að hafa dvalið þar og unnið við ýmis störf í 9 ár ákvað ég að halda aftur til höfuðborgarinnar og halda menntun minni áfram frá því sem frá var horfið og fara í háskólanám. Haustið 2005 byrjað ég í fullu námi og er skráð í fullt nám fram á vorönn 2007 og ákvað ég að taka námslán hjá LÍN til þess að standa straumi að kostnaði við námið. Sumarið 2006 fer ég að vinna í höfuðborginni og eftir sumarið er mér boðið áframhaldandi vinna með skólanum. Um miðja vorönn (mars) kemst ég að því að ég er ólétt og vegna veikinda sem ég hefð þjáðst af síðan ég var barn er mér ráðlagt af læknum að minnka við mig nám og vinnu. Strax fer ég að leiða hugann að því hver sé réttur minn til fæðingarorlofs og kemst að því að til þess að fá fæðingarstyrk námsmanna þarf ég að hafa verið í 75% námi á 6 mánaða tímabili fyrir fæðingu barnsins og til þess að fá fæðingarorlof sem launþegi þarf ég að hafa verið í meira en 25% vinnu á jafnlöngu tímabili. Ég leyta mér upplýsinga hjá Fæðingarorlofssjóði, bæðin símleiðis og á netinu, vegna minna sérstöku aðstæðna og fæ þau svör að varðandi fæðingarstyrk námsmanna  megi ég ekki nota haust og vorönn til þess að fá út þetta 75% meðaltal, þrátt fyrir að engin önn í neinum skóla sé 6 mánuðir. Til þess ná þessum 75% námsárangri þarf ég að skila að lágmarki 11 einingum á vorönn. Ég stundaði nám við hugvísindadeild Háskóla Íslands þar sem flest fög eru 5 einingar og ég var skráð í 3 slík. Vegna þess að mér var ráðlagt að minnka við mig námið vegna veikinda minna ákvað ég að skrá mig úr einu faginu og því var ég aðeins skráð í 10 einingar. Ég spyr um þetta hjá Fæðingarorlofssjóði og er mér ráðlagt að skrifa bréf með umsókn minni um fæðingarstyrkinn og útskýra mínar aðstæður og það verði tekið tilliti til þeirra við meðferð hennar. Einnig var mér sagt að fulltrúa lánasjóðs námsmanna við háskólann að ég fengi undanþágu vegna þess að flest öll fög væru einmitt bara 5 einingar og því ekki hægt að skrá sig úr aðeins 4 einingum. Ég hafði nú vaðið fyrir neðan mig og ákvað að ég muni einnig sækja um fæðingarorlof sem launþegi og vonast til þess að ég muni getað unnið frá lokum annarinnar í skólanum og þangað til mánuði fyrir fæðingu barnis, sem eru 6 mánuðir. Ég geri mér starx grein fyrir því að jafn vel þurfi ég að minnka við mig vinnu undir það síðasta og jafn vel hætta en ákvað að láta á þetta reyna hjá mér. Og allt kom fyrir ekki, tæpum 4 mánuðum fyrir fæðingu dóttir minnar verð ég að hætta að vinna og fer ég aftur að huga að umsókn minni um fæðingarorlofið. Ég fer í það að útvega mér tilheyrandi pappíra með fylgja verða með umsókn minni og voru það mörg erindin sem ég þurfti að reka og tók það mikið á vegna veikinda minna. 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag dóttir minnar sendi ég umsókn mína og þá byrjar pappírsflóðið fyrir alvöru. Ég fæ hvert bréfið á fætur öðru frá Fæðingarorlofssjóði um að þetta og hitt vanti í umsókn mína og að hinn og þessi pappírinn sem ég hafi sent sé ekki fullnægjandi. Veikindi mín höfðu versnað og nokkrir meðgöngutengdir kvillar voru farnir að há mér all nokkuð og því tók þetta mikið á líkamlega og andlega. Eftir að hafa útvega mér þá pappíra sem upp á vantaði var ég búin að vera launalaus í 1 mánuð vegna þess að umsókn mín hafið ekki verið tekin til yfirferðar. Mér var á þessum tímapunkti farið að lengja eftir einhverri niðurstöðu og leyta upplýsinga símleiðis hjá Fæðingarorlofssjóði í sambandi við umsókn mína. Mér er tjáð það að ef ég fái samþykkt umsókn mína um fæðingarstyrk námsmanna hafi ég ekki rétt á þeirri framlengingu sem konur hafa rétt á vegna veikinda á meðgöngu, þ.e.a.s. ef þær þurf að hætta vinnu meira en 2 mánuðum fyrir fæðingu barnsins. Fékk ég þá skýringu að við námsmenn yrðum ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni ef við veikjumst og því hefum við ekki rétt á þessari framlengingu. Þetta er auðvitað ekki rétt. Það fjárhagslega tjón sem ég verð fyrir vegna minna veikinda kemur þannig fram að ég verð að endurtaka 10 einingar af mínu námi og það segir sig sjálft að það kostar meiri tíma og peninga. Reikningarnir mínir voru auðvitað farnir að hlaðast upp hjá mér eftir að hafa verið launalaus í 1 mánuð og ég spyr hvað ég geti gert. Mér er tjáð að ég geti leytað til verkalýðfélagsins míns, að þau greiði oft félagsmönnum sínum þessa mánuði. Ég fer eftir þessum ráðum og sem betur fer er mitt verkalýðsfélag eitt af þeim félögum sem greiða þessa mánuði. Ég fæ loks bréf frá Fæðingarorlofssjóði um það að ég uppfylli ekki þau skilyrði sem þarf til að hafa rétt á fæðingarorlofi sem launþegi, til þess hafi ég ekki nóga vinnu. Því verð ég að treysta því að umsókn mín um fæðingarstyrk námsmanna verði samþykkt. Ég var nokkuð pirruð þegar ég var að ýta á eftir niðurstöðunni við karlkyns starfsmann sjóðsins og varð bara reið þegar hann benti mér á það ég myndi hvort sem er alltaf fá peningana greidda á endanum þegar niðurstaðan kæmi. Ég benti honum nú kurteisilega á þá staðreynd að ekki gæti ég lifað á loftinu á meðan og að skuldirnar mínar myndu heldur ekki bíða eftir niðurstöðunni. Enn dregur nær fæðingu barnsins og heilsu minni versnar enn. Mér er farið að lengja eftir niðurstöðu í mínu máli og tilhugsunin að umsókn minni verði hafnað liggur þungt á mér því að ef henni verður hafnað þarf ég að sætta mig að fá 43.899 kr. á mánuði sem er sama og þær konur sem eru hvorki á vinnumarkaðnum né í námi eru að fá. Loks kom niðurstaðan og var hún mér ekki í hag, mér var hafnað um styrkinn líka. Þá var mér nú allri lokið! Ég hafði verið í fullu námi síðan haustið 2005, vinnu með skólanum og á sumrin líka og vegna þess að ég veikist og þurfti að minnka við mig nám og vinnu á meðgöngunni þá náði ég ekki að uppfylla þau skilyrði um ákveðið mikla vinnu eða ákveðið mikið nám á 6 mánaða tímabili fyrir fæðingu barnsins. Sem sagt, það má lítið útaf bera á þessum 6 mánuðum til þess að allt fari til fjandans. Ég hef aftur samband við Fæðingarorlofssjóð símleiðis og læt þau vita að ég sætti mig engan veginn þetta og ég vil meina það að aðeins vegna viðbragða minni hafi mér verið bent á lokatilraun til að athuga hvort að ég hafi rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Ef ég hefði ekki brugðist svona við hefði mér ekki verið bent á það að sækja um hjá Tryggingarstofnun ríkisins það sem kallast sjúkradagpeningar námsmanna, sem ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að væru til. Ef ég fengi þá samþykkta þá fengi ég kannski fæðingarstyrkinn. Ég sækji um og er sagt að umsóknin taki 7-10 daga að fara í gegnum kerfið hjá þeim. Ég fæ loksins bréf og þar er mér tjáð að læknisvottorðið sem fylgdi með umsókninni hafi ekki verið fullnægjandi.

Ég, eins heiðarleg og ég er, segi í vottorðinu að ég hafi verið óvinnufær að hluta til og vegna þess hef ég ekki rétt á þessum sjúkradagpeningum, því að þeir eru aðeins fyrir þá sem eru óvinnufærir að öllu. Ég átti sem sé að ljúga bara nógu mikið. Einu ráðin sem ég fékk frá Tryggingarstofnun voru þau að ég þyrfti að skila inn nýju vottorði um að ég hafi verið óvinnufær að öllu, að ég hafi ekki getað sinnt námi mínu að fullu. Þau ráð sem ég fékk frá Fæðingarorlofssjóði voru sú sömu og einnig þau að ef ég vildi fá fæðingarorlof sem launþegi gæti ég fengið vinnuveitandann minn til þess að skrifa undir plagg þess efnis að við hefðum samið um það hvenær og hve mikið ég myndi vinna í hverjum mánuði, sem sagt fleiri lygar. Ég var sem sagt í komin í þá stöðu að þrátt fyrir að ég hafi verið í fullu námi á síðustu 2 árum, vinnu með skólanum og á sumrin, þá hef ég aðeins rétt á fæðingarstyrk sem fólk sem er hvorki á vinnumarkaðnum, í námi eða á einhverjum bótum, styrkur að upphæð 43.899 kr á mánuði í 6 mánuði. Ég var hálfpartinn búin að sætta mig við orðin hlut þegar mér er bent á það að ef fólk lendir í þessari aðstöðu þá fengi það greitt upp að 95.000 kr frá félagsmálastofnun. Ég panta því tíma hjá Þjónustumiðstöð miðbæjar og Hlíða og þar bíða mín ennþá fleiri góðar fréttir. Vegna þess að ég er í sambúð og samanlagðar tekjur mínar og mannsins míns eru yfir 150.000 kr á mánuði þá hafi ég ekki rétt á þessari hækkun. (Vil samt sem áður taka það fram að tekjur okkar hjóna eru ekki háar) Ég sem er nú ekki mikill femínismi, er engan veginn sátt við það að það sé allt í lagi að konur fái þessa skitnu upphæð vegna þess að þær eru hvort sem er á framfæri mannanna sinna. Skilaboðin sem ég fæ svo þarna eru þau sömu og frá Tryggingarstofnum og Fæðingarorlofsjóði, ljúga og misnota kerfið.

En eftir mánaðar langa baráttu í þessu máli var mér algerlega allri lokið og sætti mig við þessa niðurstöðu, ég hafði einfaldlega ekki meira úthald. Nú er ég meira en hálfnuð með mitt fæðingarorlof, skuldirnar hlaðast upp, (maðurinn minn er ekki borgunarmaður fyrir bæði hans skuldum og mínum) og horfurnar á því að ég komist strax út á vinnumarkaðinn þegar því líkur eru ekki góðar. Ég gæti sem sagt lennt í því vera með litlar sem engar tekjur þangað til að ég byrja aftur í háskólanum næsta haust og fer á námslán.

Þessi lög sem Fæðingarorlofssjóður fer eftir eru í ljósi þessarar reynslu minnar mein gölluð. Lagabókstafurinn er það þröngur að hann leyfir ekki undantekningar eins og í mínu tilfellli. Mér var tjáð það af starfsmönnum sjóðsins að ég gæti jú alveg kært niðurstöðuna en hún yrði samt sem áður alltaf sú sama. Ég skil ekki af hverju er ekki hægt að fara 2 ár aftur í tímann eins og hjá launþegum þegar svona aðstæður koma upp. Bara vegna þess að síðustu 6 mánuðir fyrir fæðingu dóttur minnar fara svona hjá mér þá er eins og það sem á undan þeim fór þurrkist bara út. Eins og ég hafi fyrir þann tíma ekki verið í skóla og ekki verið í vinnu. Ég hef líka heyrt af dæmum um það að konur sem hafa verið í annað hvort vinnu eða námi á síðastliðnum 2 árum fyrir fæðingu barnsins, en hafi á þessu tímabili lent í því tímabundið að hafa verið atvinnulausar, hafi verið veitt undanþágu á þann hátt að upphæð atvinnuleysisbótanna hafi ekki verið notaðar í útreikninga þeirra. Af hverju var ekki hægt að veita undantekningu í mínu tilfelli? Jú, svörin við þeirri spurningu voru sú, ,, að ef það verður gerð undantekning fyrir þig þá fylgja svo margir á eftir,, þetta finnst mér ekki góð rök. Ef lögin eru þannig gerð að ég lendi í því að ég uppfylli ekki öll skilyrðin þá hlýtur einnig að verða að vera til undanþágur til að koma í veg fyrir svona lagað.

Einnig vil ég benda  á það að lögin eru einnig mjög gölluð þegar kemur að námsmönnum. Í þeirra tilfellum eru einnig þessir heilögu 6 mánuðir sem allt sendur og fellur með. En það er engin námsönn í háskóla 6 mánuðir og einnig má heldur ekki leggja saman tvær annir til þess að fá þetta 75% meðaltal, sem er auðvitað bara fáránlegt. Og þetta með einingafjöldann mætti líka endurskoða. Svo finnst mér fáránlegt að námsmenn þurfi á sína fram á að hafa náð sínum prófum til þess að fá styrkinn, ekki er farið fram á undirskrifað blað frá yfirmönnum launþega um það hvernig þeir standa sig í vinnunni.

Mér finnst einnig ég vera búin að vinna mér það inn að fá mannsæmandi laun í mínu fæðingarorlofi, ég er búin að skila mínu til þjóðarbúsins, búin að vinna síðan ég var 14 ára gömul. Málunum virðist vera þannig háttað að til þess að fá það sem ég taldi að ég ætti fullan rétt á hefði ég þurft að ljúga bara nógu mikið. Kerfið er einnig ekki nógu aðgengilegt, alla vega ekki fyrir mig, og hægt hefði verið að koma í veg fyrir að ég þyrfti að standa í svona miklum vandræðum. Ég hefði átt að geta fengið þessar upplýsingar allar á einum stað og miklu fyrr í ferlinu. Það er eins og það sé viljandi gert að veit ekki of miklar upplýsingar, því að guð forði okkur frá því aðf fólk fengi nú það sem það hefur rétt á!!! 

Um bloggið

Siggan

Höfundur

Siggan
Siggan
Móðir, unnusta, nemi og svo margt fleira!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 324

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband